Kviknaði í trénu á jóladagskvöld
Sesselja Sigurðardóttir, Vogum Vatnsleysuströnd rifjar upp jólin í gamla daga
„Það var miklu meira mál að fara í heitt bað á þessum tíma en við vorum þvegin á eldhúsgólfinu í bala alveg fram til fimm, sex ára aldurs,“ segir Sesselja Sigurðardóttir, Vogum Vatnsleysuströnd þegar hún rifjar upp jólin í gamla daga.
„Ég bjó inn á Hellum Vatnsleysuströnd frá árinu 1954 þegar við hjónin flytjum hingað í Vogana árið 2007, ég og eiginmaður minn heitinn, Brynjólfur Gunnar Brynjólfsson. Við eignuðumst sjö börn en maðurinn minn vann hjá hernum og ÍAV. Ég var húsmóðir enda nóg að gera með stórt heimili. Sjálf er ég fædd árið 1929 og ólst upp á Akranesi en við vorum átta systkinin, einn bróðir og sjö systur. Ég man ágætlega eftir jólunum heima þegar ég var lítið barn en það var ekki til mikið af peningum. Pabbi minn var trésmiður og vann allt sem bauðst. Á vertíðum var hann landmaður við bát, vann í beitningu og flatti fisk, allt gert á höndum. Hann byggði heimili okkar, sem var járnklætt timburhús. Í húsinu var kalt rennandi vatn en heitt vatn kom seinna. Fyrst var kamar utandyra en svo kom klósett inni seinna. Ég var fyrsta barnið sem fæddist í húsinu sem pabbi byggði, allir fæddust heima á þeim tíma og þá kom ljósan og læknir ef einhverjir erfiðleikar voru.“
Mikið lagt upp úr hreinlæti
„Það var mikið lagt upp úr því að við værum hreinleg. Maður spáði ekkert í að það væri einhver fyrirhöfn að hita allt vatnið sem þurfti til að þvo okkur. Á þessum tíma sinnti móðirin húsmóðurstörfum, komst ekki yfir meira. Það þurfti til dæmis að handþvo allar bleyjur og allan annan þvott. Seinna kom þvottahús niðri og þá fékk móðir mín aðstoð þegar hún þvoði öll sængurfötin og fleira sem kallaðist stórþvottur. Taurullan var niðri og við vorum einnig látin hjálpa strax og við gátum.“
Aðfangadagskvöld heilagt
„Það var alltaf bakað fyrir jól, smákökur og tertur. Seinna vorum við látin hjálpa til við að baka. Á aðfangadagskvöld klæddu eldri systkinin þau yngri. Allir hjálpuðust að, eldri systur voru látnar sinna þeim yngri. Þá var venja að öll fjölskyldan færi í kirkju á aðfangadagskvöld klukkan sex. Heima hjá okkur var aldrei kvöldmatur á aðfangadagskvöld heldur fengum við eftir kirkju, nýbakað brauð með hangikjötsáleggi, heitt súkkulaði og smákökur. Þetta var mikil veisla og voða hátíðlegt. Það var ekki mikið um pakka en við fengum yfirleitt nýja flík sem mamma saumaði á okkur. Heima var stofan lokuð nema á hátíðarstundu, þegar eitthvað var um að vera. Á aðfangadagskvöld var stofan opnuð og þá vissum við að von var á pakka. Þegar ég var lítil þá fengum við spilastokk sem við máttum opna og leika okkur með en ekki spila spil því það var bannað á aðfangadagskvöld. Það var svo mikil jólahelgi yfir þessu kvöldi. Mikið held ég að mamma hafi verið þreytt að kvöldi aðfangadags. Seinna bjuggum við til jólaskraut, músastiga og þess háttar.“
Eldfimt jólatré
„Á heimili okkar var heimasmíðað jólatré með logandi kertum og pabbi bannaði okkur að skreyta tréð með bómul. Við skreyttum það með pappír. Eitt sinn á jóladagskvöldi kviknaði í jólatrénu. Við hrópuðum upp og pabbi kom stormandi inn, rauk til og vafði trénu strax inn í mottu og kæfði eldinn þannig. Hann fékk brunasár og við systkinin fengum samviskubit því við vorum helst að búa til skraut úr krep-pappír sem var mjög eldfimur.“